Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Ekki mun ég gráta blaðið

Það skildi þó aldrei vera að Fréttablaðið færi aftur í þrot og skildi eftir sviðna jörð?  Þrátt fyrir að ágætt sé að fá frítt blað heim til sín þá mun ég seint sakna Fréttablaðsins, blaðið hefur boðið uppá ritskoðaðar fréttir líkt og fréttastofa Stöðvar 2, þar sem eigandinn hefur fengið svigrúm til þess að tjá sig á sinn hátt og án gagnrýni sem og hefur þessi miðill verið notaður til þess að svara öðrum dagblöðum morgundagsins.  Líkt og gerðist þegar grein birtist í sunnudagsblaði Fréttablaðsins sem svar við grein sunnudagsblaðs Morgunblaðsins fyrir fáeinum vikum - öllu var ýtt til hliðar svo eigandi blaðsins fengi að koma fram með sínar athugasemdir.

Það vantar frjálsan óháðan fjölmiðil á Íslandi með dreifðu eignarhaldi.  Fjölmiðil sem fólkið getur treyst án ótta við ritskoðun eigenda. 

Líklega værum við ekki í þessari fjölmiðlakrísu ef Ólafur Ragnar hefði ekki hafnað fjölmiðlalögunum á sínum tíma fyrir vin sinn, lögmann sinn og fyrrum kosningastjóra sinn.


mbl.is Ekkert Fréttablað á sunnudögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðlaugur Þór hefur dug og kjark sem þarf til þess að gera breytingar

3-gulliÞað hljóta að hafa verið erfiðir dagar undanfarið hjá Guðlaugi Þór, heilbrigðisráðherra.  Það er ekki auðvelt verk að ætla sér að stokka upp í rótgrónu heilbrigðiskerfi okkar landsmanna. 

Flest allir geta tekið undir með Guðlaugi Þór að breytinga er þörf í heilbrigðiskerfinu.  Breyta þarf áherslum og starfsemi kerfisins.  Síðan Guðlaugur tók við ráðherraembætti hefur hann sett sig vel inn í málaflokkinn og unnið hörðum höndum við skipulagningu m.a nýrrar heilsustefnu sem ber heitið Heilsa er allra hagur, stefnuna má finna á heimasíðu ráðuneytisins.  Hann hefur einnig unnið að endurskipulagningu heilbrigðisþjónustunnar með það að markmiði að einfalda stjórnsýslu, auka hagkvæmni í rekstri og tryggja starfsemi heilbrigðisstofnana. 

Samkvæmt vef heilbrigðisráðuneytisins þá verða megin breytingar sem varðar spítalarekstur á Höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess eftirfarandi:

  • St. Jósefsspítala-Sólvangi verður alfarið falið hlutverk á sviði öldrunarlækninga og hvíldarinnlagna
  • Sérfræðingum og fagfólki, sem þar hafa gert skurðaðgerðir, verður boðin aðild að því að byggja upp        skurðstofurekstur í nýrri aðstöðu á Suðurnesjum 
  • Meltingarsjúkdóma - og lyflækningadeild verður tengd starfsemi á Landspítalans og hin góða reynsla af göngudeildarstarfsemi á St. Jósefsspítala þróuð með sérfræðingum þaðan
  • Landspítalinn mun yfirtaka skurðstofurekstur á Selfossi
  • Vaktir á skurðstofum á Selfossi og í Keflavík verða lagðar af


Einnig verður farið í breytingar á landsbyggðinni.  Breytingarnar fela í sér verulega einföldun stjórnsýslu stofnana með sameiningu þeirra og ákvörðun um stóraukna samvinnu þeirra. Er þetta meðal annars gert í framhaldi af setningu nýrra laga um heilbrigðisþjónustu sem tóku gildi fyrir rúmu ári.

Þetta eru helstu breytingarnar á landsbyggðinni:

  • Allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar á Norðurlandi verða sameinaðar í eina undir forystu Sjúkrahússins á Akureyri, sem verður Heilbrigðisstofnun Norðurlands og mun m.a.  taka við hlutverki ráðuneytisins varðandi samning um heilsugæsluna á Akureyri
  • Allar heilbrigðisstofnanir og heilsugæslustöðvar á Vesturlandi verða sameinaðar í eina með höfuðstöðvar á Akranesi
  • Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja verður sameinuð Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem jafnframt tekur við umsjón með samningi sem í gildi er milli Heilbrigðisstofnunarinnar á Höfn í Hornafirði og heilbrigðisráðuneytisins
  • Heilbrigðisstofnunin á Patreksfirði sameinast Heilbrigðisstofnun Vestfjarða sem hefur höfuðstöðvar á Ísafirði
  • Aukið verður enn frekar samstarf milli Heilbrigðisstofnunar Austurlands og sjúkrahússins á Akureyri

Einfaldari stjórnsýsla, hagkvæmari rekstur og aukin samvinna stofnanna er talin geta dregið verulega úr útgjaldaaukningunni sem er staðreynd varðandi þær stofnanir sem hér eiga í hlut, en markmið breytinganna er að slá skjaldborg um og tryggja kjarnastarfsemi þessara mikilvægu stofnana á sviði heilbrigðismála á erfiðum tímum.

Flest erum við þannig gerð að við viljum sem fæstar breytingar í nærumhverfi okkar.   Við getum hinsvegar oft ef ekki yfirleitt fagnað róttækum breytingum sem gerðar eru annarsstaðar en hjá okkur.  Þær breytingar sem Guðlaugur Þór er að gera núna eru vissulega róttækar breytingar en þær eru þarfar.  Þess vegna megum við ekki láta fáa hagsmunaaðila spilla fyrir annars góðum og þörfum breytingum.

Ef við tökum sem dæmi starfsemi St. Jósefsspítala-Sólvangi, þar er verið að sérhæfa stofnunina í öldrunarþjónustu líkt og Sólvangur hefur sinnt í gegnum árin.  Önnur þjónusta færist á Suðurnesin eða á aðra spítala höfuðborgarsvæðinsins.  Öllu starfsfólki hefur verið boðið að starfa áfram en á breyttum vinnustöðum.  Fyrir þá sem búsettir eru í Hafnarfirði þá er álitamál hvort það sé betra að aka niður á Landsspítala eða suður með sjó í Reykjanesbæ, líklega er það jafn langur tími á annatíma í umferðinni.  Það verður áfram starfsemi í St. Jósefsspítala-Sólvangi því þar verður öldrunarþjónusta, er það svo slæmt?  Ég tel ekki svo vera.

Við eigum að fagna þeim breytingum sem komið hafa fram hvort heldur sem er hér í höfuðborginni eða úti á landsbyggðinni.  Við eigum að vera óhrædd við breytingar og eigum þess í stað að fagna því að loksins er kominn ráðherra í heilbrigðismálin sem hefur dug og kjark til þess að gera nauðsynlegar breytingar.  Mín ósk er sú að hann taki enn betur til í heilbrigðiskerfinu því þess er ekki vanþörf og hægt er að nefna mörg dæmi um réttmæta hagræðingu á þeim vettvangi.


mbl.is Samfylkingarfólk í Skagafirði mótmælir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er einhver eftirlitsaðili eða stofnun sem sinnir starfi sínu?

Ég er nú alvarlega farinn að hugsa um hvort það sé einhver eftirlitsaðili eða eftirlitsstofnun sem er í raun að sinna starfi sínu.  Hvað hafa þessar stofnanir verið að gera undanfarna mánuði eða öllu heldur undanfarin ár?

Hvernig getur það gerst að bílaleigubifreið er ótryggð í útleigu eða öllu heldur ótryggð yfir höfuð?  Í fréttinni segir að mál hennar séu nú til rannsóknar, hvar hafa eftirlitsaðilar verið??

Ríkisskattstjóri er að athuga hverjir séu raunverulegir eigendur um 300 stærstu hlutafélaga hér á landi, samkvæmt fréttum í dag.   Er þetta ekki eitthvað sem ríkisskattstjóri ætti að vera með nú þegar?

Fjármálaeftirlitið hefur ekki unnið vinnuna sína undanfarin ár eins og sést hefur síðustu vikur og mánuði.  Spurningin er í raun hvar maður ætti að byrja á þeirri upptalningu sem fjármálaeftirlitið hefur ekki sinnt skyldum sínum.  Staða íslensku bankanna, rannsókn KPGM á Glitnir.  Forstjórinn virðist hinsvegar vera fullkunnugt um hve marga frídaga hann á enda búinn að vera í fríi frá því fyrir jól, þrátt fyrir það ástand sem nú ríkir í þjóðfélaginu.

Eftirlit í byggingariðnaði hefur verið ábótavant síðustu ár ef nokkurt.  Verktakar virðast hafa fengið að byggja án athugasemda og hver sem er getur líklega orðið byggingarstjóri yfir nýbyggingum enda er það með öllu marklaus ábyrgðartitill.

Samkeppniseftirlitið, hefur verið sofandi og sinnt sínum skildum bæði hægt og ílla.  Mál sem komið hafa til kasta stofnunarinnar hafa dregist á langinn og lítið sem ekkert komið út úr þeim.  Líklega er nærtækast að rifja upp mál olíufyrirtækjanna.

Hér að ofan eru reyndar aðeins taldar örfáar af þeim eftirlitsaðilum og stofnunum sem eiga að sinna skildum sínum, landi og þjóð til heilla. 

Það er einfaldlega kominn tími á endurskipulagningu í þessu kerfi með eitt markmið, gera kerfið skilvirkara. 


mbl.is Bílaleigubílar reyndust ótryggðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ertu viti eða hálf viti?

Var það ekki Pétur sem sagði eitt sinn  í útvarpsþætti hjá Svavar Gests þegar Svavar sagði "Pétur, þú ert nú svo hár að þú gætir verið viti"..... þá svaraði Pétur rólega "já og þú eins og hálf viti" :-)

Hér í Grafarholti er hinsvegar ár lýðheilsunar - nú skal það tekið með trompi.


mbl.is Ár hálfvitans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10, 100, 1.000 eða 10.000 manns - bíddu eða gleymdi ég að telja 1 eða 2, berst að byrja aftur !

Það hefur á köflum verið borslegt að fylgjast með fréttaflutningi af þeim mótmælum sem hafa verið undanfarið því á meðan skipuleggjendur mótmælana telja að á svæðinu hafi verið þúsundir mótmælenda þá hefur lögreglan talið að um mun færri hóp mótmælenda hafi verið að ræða.  Líkt og við Hótel Borg á gamlársdag sagði lögreglan að um 150 til 200 manna hóp hafi verið að ræða á meðan vinstri grænir töldu að þarna hafi verið um 500 til 600 manns hafi verið á svæðinu.  Sama á við um mótmælin nú í dag á Austurvellinum þar sem skipuleggjandinn taldi sig sjá þúsundir manna þá sagði lögreglan að um 1500 til 2000 manns væru á svæðinu.  Spurningin er hvor aðilinn skyldu hafa meiri reynslu á "talningu" í miðbæ Reykjavíkur?  Líklega lögreglan þar sem hún hefur mikla reynslu í talningu eða ágiskun á fjölda fólks í miðbæ Reykjavíkur.

Það er spurning hvort ekki þurfi að kalla fram manninn með bestu molanna, Finn Ingólfsson stjórnarmann Frumherja, þeir gera sig einu sinni út fyrir að vera með löggildingar, þeir hljóta að geta soðið saman löggilda talningu fyrir landann og ekki væri nú verra að sjálfur Finnur Ingólfs geti nú grætt örlítið á löggildingunni.

En varðandi mótmælin í dag á Austurvellinum þá get ég ekki annað en tekið að ofan fyrir Herði Torfa fyrir það að mótmæla mótmælendunum sem mótmæla andlitbirtingu og mótmæla því að mótamæla með óhulið andlit við mótmæli, brátt verður það líklega þannig að mótmælendur fari að mótmæla sjálfum sér og saman standa þeir svo mörg þúsund manns að mótmæla mótmælum vegna mótmæla. 

Hinsvegar hef ég ákveðið að mótmæla að barn sé selt á mótmælum líkt og um gripasölu væri að ræða, þar sem barn er látið fara fram með skoðanir foreldra sinna eftir að búið er að hlíða barninu vel og vandlega yfir.  Slíkt er vitanlega ekki eðlilegt enda afar ósmekklegt af foreldrum að ota barni sínu svona fram til þess að reyna fanga athygli fjölmiðla.
.


mbl.is Mótmælt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Steingrímur farinn að finna ilm af völdum?

Ekki er maður hissa á þeirri skoðun Steingríms að hann vilji kosningar sem fyrst og helst strax enda alls óvíst hve lengi þessi stuðningur varir sem nú virðist vera koma fram í skoðanakönnunum.  Ég tel það þó nokkuð víst að Vinstri grænir muni ekki fá um þrjátíu prósent fylgi í kosningum.  Því áður en fólk gengur inn í kjörklefa þá vill það sjá lausnir ekki einungis gaspur og gagnrýni.

Steingrímur vill ekki kosningar fyrir þjóðina, hann vill kosningar fyrir sig sjálfan því hann telur að stólinn sé hans.  Hann telur sig vera kominn með nægilega gott fylgi sem gæti tryggt honum forsæti í nýrri ríkisstjórn, Guð forði okkur frá þeim gjörningi að slíkt gæti gerst.

Það væri skemmtileg tilbreyting ef Steingrímur kæmi fram með einhverjar lausnir í stað þess að standa í skipulagningu mótmæla líkt og þingmenn flokksins hafa verið að gera að undanförnu.  Þar sem bæði formaður og þingmenn hans hafa hreinlega hvatt til ofbeldisfullra mótmæla sem hafa haft í för með sér skemmdaverk á eigum almennings og einkaaðila.  Spurning hvort vinstri grænir séu reiðubúnir að greiða fyrir þær skemmdir sem voru t.d. á lögreglustöðinni eða við Hótel Borg?


mbl.is Kosningar óumflýjanlegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Óttarr Makuch
Óttarr Makuch

ottarr@centrum.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband