Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Enginn áhætta

Enginn áhætta - aukinn ábyrgð.

Það verður seint sagt um Árna Ómar og félaga hans að þeir séu ekki allir að vilja gerðir svo hægt sé að kveikja upp í áramótabrennum höfuðborgarbúa.  En í þessum málum má alls ekki taka neina áhættu því ábyrgðin er mikill sem hvílir á slökkviliði, lögreglu, veðurathugunarfólki og að ógleymdum brennustjórunum.  Því ef eitthvað færi úrskeiðis þá er þetta fólk sem höfuðborgarbúar myndu fyrst benda á og segja "af hverju leyfðuð þið að kveikja - þetta er ykkur að kenna".

Ég tel að þessi ákvörðun hafi síður en svo verið tekinn í fljótfærni heldur hefur hún án efa verið tekinn að vel yfirlögðu ráði. 

Eins og eitthvert tryggingarfélag sagði eitt sinn "þú tryggir ekki eftir á" eða eins og Bibba á Brávallargötunni sagði eitt sinn..... " það er of seint að byrgja barinn þegar barnið er dottið í það"

Ég læt það ógert að segja hvort orðatiltækið er betra þó það síðarnefnda komi manni frekar til þess að brosa, ég virði þá niðurstöðu sem Árni Ómar og samstarfsfólk hans hafa ákveðið og fanga því að ekki sé tekinn nein áhætta í þessum málefnum.


mbl.is Engar brennur í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VARÚÐ - VARÚÐ, Hætta á ferð (úlfur úlfur)

Það mætti halda að þeim hefði verið gefin stórgjöf s.s. hest, utanlandsferð eða jeppa miðað við fréttaflutningin af þessari gjöf og ég tala nú ekki um bloggfærslunnar, þar sem skrifað er allt frá því að þetta sé saklaus smágjöf uppí mútur af grófustu gerð.

Ég einfaldlega sé ekkert athugavert við það að Landsbankinn gefi ráðherrum lítilsháttar gjöf í tilefni jólanna.  Þætti það í reynd skrítið ef þeir gerðu það ekki.  Þar sem þetta fólk á án efa í miklum samskiptum allt árið um kring.  Ég fékk t.d. veglega gjöf frá Kaupþing í fyrra, hinn margfræga hatt sem var svo brauðkarfa eftir allt saman, en þar sem það hefur harðnað mikið á dalnum á þeim bænum fékk ég forláta dagatal sent til mín núna sem fór auðvitað beinustu leið í ruslakörfuna með öðrum auglýsingasneplum.

En aftur af gjöfum til ráðherra.  Það ætti eflaust að setja einhverjar reglur sem færu yfir gjafir til forseta, ráðherra, þingmanna og annarra opinberra starfsmanna hjá ríki, borg eða bæ.  Það mætti hugsa sér til að mynda að gjafir sem metnar væru yfir 20.000 krónum eða svo yrðu gerðar opinberar á heimasíðum þeirra stofnanna sem starfsmaðurinn vinnur hjá eða að sett upp yrði heimasíðan www.opinberargjafir.is þar sem birtur yrðu listi allra þeirra starfsmanna ríkis, borgar eða bæja sem fengju gjafir.  Þar kæmu fram upplýsingar um gjöfina, andvirði og þann sem gefur. 

En á meðan rætt er um þessa 2.500 króna gjöf bankans til ráðherra þá væri ekki úr vegi að spyrja hvað fólki finnst um það þegar forseti þjóðarinnar hefur flogið oftar en einu sinni í boði fyrirtækja útí bæ?  Þær ferðir kosta án efa meira en eitt stykki Rioja vín  Muga árg. 2003!

Ég hef reyndar áður skrifað hér að stjórnarráðið ætti auðvitað að eiga einkaþotu fyrir forsetan og ráðamenn, líkt og önnur lönd hafa til taks fyrir sitt fólk.


mbl.is Ráðherrar fengu vín frá Landsbankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undantekning eða regla?

Það er spurning hvort þessar sögur séu undantekning eða að verða að reglum?  Það liggur við að maður lesi fréttir á hverjum degi um fólk sem lætur sig hverfa og birtist svo að nýju annað hvort minnislaust eða bara févana.

Ég man að fyrir nokkru síðan kom maður aftur til landsins sem talinn var af.  Sá ætlaði að segja sögu sína eftir að hann væri búinn að jafna sig á endurlífguninni, en ekkert hefur spurst til hans síðan.  Vissulega kemur manni sú saga lítið sem ekkert við, en það gæti verið áhugavert að heyra hana.


mbl.is Maður handtekinn tveim árum eftir sjálfsmorð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenn virðing fyrir góðu starfi

Þegar ég var að lesa málgagn þjóðarinnar og eina óháða dagblaðið í morgunn þá rakst ég á grein eftir frænda minn.  Þetta er einkar áhugaverð grein um veru hans á Kumbaravogi sem öllum ætti að vera holl lesning, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur um slík búsetu úræði.  Ég tók mér það bessaleyfi að setja inn greinina hans hér fyrir neðan og vona að það sé í lagi hans vegna.

 

 Almenn virðing fyrir góðu starfi

Nokkur umræða hefur skapast um fjölskylduheimilið á Kumbaravogi á þessu ári. Þótt mikill meirihluti þeirra einstaklinga sem ólust upp á staðnum hafi lýst Kumbaravogi sem góðu og öruggu heimili vill það brenna við að mest sé gert úr neikvæðum viðhorfum á síðum dagblaða, ekki síst af þeim sem einungis þekkja til heimilisins af afspurn. Það finnst mér miður. Ég var sjö ára gamall þegar ég kom á Kumbaravog veturinn 1967 og þar átti ég heimili til tvítugs er ég stofnaði mitt eigið heimili á Stokkseyri ásamt konu minni. Þar höfum við búið og starfað síðan. Á fullorðinsárum mínum hef ég því haft mikil samskipti við Stokkseyringa og nærsveitamenn sem þekktu og þekkja vel til Kumbaravogs. Ég hef aldrei orðið var við annað en virðingu fyrir því góða starfi sem þar fór fram, ekki síst hjá þeim sem best til þekktu svo sem fyrrverandi starfstúlkur á heimilinu og iðnaðarmenn sem unnu við húsbyggingar á Kumbaravogi. Og ég hef aldrei heyrt gagnrýnisraddir fyrr en nú eftir öll þessi ár og þá í framhaldi af umræðu um annað og alls óskylt heimili eða stofnun.

Einstaklega góðar minningar

Ég gleymi aldrei deginum þegar ég kom fyrst að Kumbaravogi ásamt yngri bróður mínum. Mér fannst eins og ég hefði stigið inn úr stormi í öruggt skjól og hlýju þegar ég hitti fósturforeldra mína Hönnu og Kristján í fyrsta sinn, og upplifði þeirra bjarta og fallega heimili. Fram að þeim tíma hafði ég ekki átt sjö dagana sæla. Ég hafði verið í vist á Norðurlandi þar sem aðbúnaður var ömurlegur, óregla mikil og kvíðinn ávallt til staðar. Raunar hafði vistin þar endað með ósköpum og við börnin send í snarhasti aftur suður. Þá tók við dvöl á ópersónulegri ríkisstofnun nálægt Reykjavík þar sem börnin voru höfð saman í stórum svefnsal með kojum upp við alla veggi og úti á miðju gólfi.

Annað var eftir því, kalt og vélrænt. Það fer hrollur um mig þegar ég hugsa til þeirra daga. Á Kumbaravogi var andinn allur annar. Þar eignaðist ég strax fjölskyldu, alvöru heimili og fósturforeldra sem sýndu mér hlýju og ástúð frá fyrsta degi. Það er erfitt að lýsa muninum á ópersónulegri stofnun og heimili fyrir þeim sem ekki þekkja til en sem betur fer þurfa fæst börn að kynnast öðru en eigin heimili. En sum okkar hefðum sennilega aldrei fengið að kynnast öðru en ópersónulegum stofnunum ef ekki hefði verið fyrir Kumbaravog og starf fósturforeldra minna þar. Þetta er hinn harði raunveruleiki málsins.

Frábær staður fyrir fjörmikinn strák

Ég var einn af þessum krökkum sem var ekki mikið gefinn fyrir bókina og inniveru en hafði þeim mun meira gaman af allri útiveru, leikjum úti í náttúrunni, og öllum verklegum framkvæmdum og stússi. Fyrir ungan strák, fullan af atorku og sköpunarkrafti, var Kumbaravogur og Stokkseyri hálfgerð paradís. Athafnafrelsið og rýmið til að athafna sig var nánast ótakmarkað, hvort heldur við að smíða kofa í túninu heima, rækta grænmeti og halda gæludýr, eða við að klambra saman fleka og stunda siglingar í fjörunni á Stokkseyri, eða þá leita að hreiðrum í móunum norður af Kumbaravogi.

Sjálfur hafði ég sérstaklega gaman af öllu sem laut að trésmíðum og var ávallt stoltur væri mér trúað fyrir krefjandi verkefni. Afstaðan á Kumbaravogi var sú að leyfa okkur að þroskast í gegnum krefjandi leik og starf, og mistækist okkur var okkur kennt að reyna aftur og gera betur. Ávallt var reynt að sjá til þess að við hefðum nægan efnivið og verkfæri í leiki okkar og uppátæki. Og fósturforeldrar mínir treystu mér og kenndu mér að treysta á sjálfan mig.

Þetta hafði mótandi áhrif á mig og lífshlaup mitt. Ég var nítján ára gamall þegar ég byggði mitt eigið einbýlishús á Stokkseyri sem ég hef búið í með konu minni og fjölskyldu allar götur síðan. Í starfi mínu sem smiður og verktaki á Suðurlandi hef ég notið góðs af því veganesti sem ég fékk og þeim lífsgildum sem ég lærði á Kumbaravogi. Dugnaður fósturforeldra minna við að ferðast með sinn stóra barnahóp um byggðir Íslands og óbyggðir hafði líka mótandi áhrif á áhugamál mín og minnar fjölskyldu.

Féllum vel inn í hópinn á Stokkseyri

Ég hafði frá fyrstu tíð góð samskipti við önnur börn og unglinga á Stokkseyri og mér fannst að við krakkarnir á Kumbaravogi hefðum ætíð fallið vel inn í hópinn og aðlagast vel lífinu á Stokkseyri. Ég varð þess aldrei áskynja að litið væri á okkur með neinum öðrum hætti en önnur börn í þorpinu og minnist þess ekki að við höfum skorið okkur úr á neinn hátt hvað varðar klæðaburð, námsaðstöðu eða aðbúnað. Í þessu sem öðru tókst fósturforeldrum mínum að skapa okkur eðlilegar fjölskylduaðstæður. Ég eignaðist strax góða vini í þorpinu sem sumir eru enn á meðal minna nánustu vina. Og þar kynntist ég einnig konu minni og lífsförunaut. Við höfum nú verið gift í tæp þrjátíu ár. Drengirnir okkar nutu þess ætíð að eiga ömmu og afa á Kumbaravogi. Hanna fósturmóðir mín var einstaklega elskuleg og hlýleg kona sem börnum fannst undantekningarlaust gott að vera nálægt. Dagleg umhyggja hennar fyrir barnahópnum fannst mér nánast takmarkalaus. Kristján fósturfaðir minn er hlýr og traustur maður, föðurlegur og gat verið strangur en þó umfram allt sanngjarn maður. Það hef ég fundið í öllum mínum samskiptum við hann í rúma fjóra áratugi. Mannúð og trúfesta hefur einkennt allt líf hans til þessa dags.

Hlýleikar með okkur fóstursystkinunum

Þegar við krakkarnir á Kumbaravogi uxum úr grasi og fórum að heiman dreifðumst við um landið og heiminn eins og gengur. Við höfum þó reynt að hafa samband, ekki síst á hátíðarstundum. Ég hef alla tíð átt góð samskipti við fóstursystkini mín og hefur það ekki breyst eftir að umræðan um Kumbaravog hófst. Ég hef fylgst með umræðunni og verð að viðurkenna að það er margt í henni sem ég á erfitt með að fá botn í. Ég kýs að líta svo á að sumt í þessari skrýtnu umræðu sé einfaldlega byggt á misminni eða misskilningi. Ummæli um að við börnin höfum stöðugt verið send á aðra bæi til að vinna eru dæmi um það. Ég minnist þess ekki að við höfum hjálpað til á öðrum bæjum utan einu sinni öll þau ár sem ég hef þekkt til Kumbaravogs, og þá stuttlega við kartöfluuppskeru. Ummæli um að við höfum sýknt og heilagt verið að safna peningum fyrir hjálparstarf eru af sama sauðahúsi. Viðtókum einu sinni á ári þátt í slíkri söfnun fyrir hjálparstarf og ég er raunar stoltur að því. Ummæli um að okkur hafi verið haldið stíft að vinnu, við höfum hvorki haft tíma til tómstunda né náms, eru illskiljanleg í mínum huga. Við unnum síst meira en krakkar á öðrum bæjum í kringum okkur, áherslan á menntun og uppbyggileg tómstundamál var meiri hjá okkur ef eitthvað er.

Niðurlag

Þegar ég hafði lokið við þessi skrif á Þorláksmessu birtist í Morgunblaðinu aðsend grein, „Kumbaravogsbörnin" (bls. 34-35), þar sem vegið er með afar ósanngjörnum hætti að fósturföður mínum og æskuheimili mínu. Sú grein ber ekki vott um virðingu fyrir umfjöllunarefninu. Þar er endurtekin ýmis gagnrýni á Kumbaravog sem við fósturbörn Hönnu og Kristjáns höfðum hrakið lið fyrir lið í yfirlýsingu sem birtist í DV í mars sl. og vitnað var til í Morgunblaðinu 9. desember sl. Í greininni er einnig endurtekin sú firra að við börnin á Kumbaravogi hefðum ein byggt húsin á lóðinni, en sjálfur þekki ég persónulega á þriðja tug iðnaðarmanna sem komu að þeim framkvæmdum. Þá er í greininni gert lítið úr viðhorfum okkar, meirihluta fósturbarnanna á Kumbaravogi, sem lýst höfum þakklæti til Kristjáns og Hönnu. Þannig er í senn farið neikvæðum orðum um heimili okkar og gert lítið úr dómgreind okkar sem fullorðinna einstaklinga. Þessi framsetning er óviðeigandi. Af gefnu tilefni er rétt að taka fram að yfirlýsing okkar var algerlega að okkar eigin frumkvæði og án vitneskju fósturföður okkar.

Ég geri mér grein fyrir því að einstaklingar geta upplifað æskuár sín með ólíkum hætti, og að ævikjör manna ráða því líka að einhverju leyti hvaða blæ æskuminningar fá á fullorðinsárunum.

En við verðum öll að reyna að gæta sanngirni í umræðu um fortíð okkar og halda til haga staðreyndum málsins. Annars er hætta á að við særum fólk að ósekju.


Og hvað

Ekki það að ég ætli að halda verndarhendi yfir þessari blessuðu stúlku en ritgerðasamkeppni er nú einu sinni ritgerðasamkeppni.  Væntanlega var ekki skilyrði um að skrifa sanna sögu því oftar en ekki þegar maður skrifar ritgerð skrifar maður um eitthvað allt annað en sannleikann, lætur hugann reika og en það er kannski full langt gengið að deyða föður sinn til þess að vinna..... og þó?


mbl.is Falsaði fráfall föður í ritgerðarsamkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íþróttamaður ársins er kona !

Þorsteinn Gunnarsson formaður SÍ afhendir Margréti Láru...Kæra Margrét Lára til hamingju með kjör sem íþróttamaður ársins 2007.  Þú átt þennan titil svo sannarlega skilið eftir frábæra frammistöðu síðustu tvö ár.  Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þér og þínu liði.

Viðtak þitt eftir afhendingu verðlaunaða ætti að vera mörgum, ekki íþróttamönnum, hvatning til góðra verka og meta fjöldann í kringum sig hvort heldur sem er í íþróttum eða öðrum félagsmálum.  Það var einstaklega ánægjulegt að heyra hve hlýtt þú hugsar til hópsins og hve mikils þú metur fólkið í kringum þig. 

Það er vissulega rétt að íþróttafólk er öðru fólki á öllum aldri mikil hvatning og því er það sérlega mikilvægt að það fólk sem í framlínunni stendur sé öðrum góð fyrirmynd.  Það er akkúrat fólki eins og þér að þakka að börnin okkar leitast við að standa sig vel í íþróttum sem er afar brýnt þar sem næsta besta forvörn barna eru einmitt íþróttirnar.  Ef börn iðka íþróttir eru mun minni líkur á að þau leiðist út í óæskilegan félagsskap eða hefji drykkju ung.  Takk fyrir það!


mbl.is Margrét Lára íþróttamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona myndi ég vilja hafa það

jolamynd_392035
Þetta er auðvitað bara frábært.  Þetta er kannski ástæðan fyrir því að ég bý ekki í einbýlishúsi, frúin myndu ekki samþykkja þetta - allavega ekki þegjandi og hljóðalaust.
Gleðilega hátíð kæru bloggvinir.

Skemmtilegur leikur

Stórskemmtilegur grínisti, alveg hreint frábær og hefur án efa komið aðstandendum til þess að brosa út í annað.  Spurning um hvort maður fari ekki og biðji Ragga í Space að geyma eins og 80 kort eða svo.
mbl.is Sendi jólakort frá himnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með nýársávarp Bessastaðabóndans

Ég hlakka til þess að geta fylgst með nýárs ávarpi forseta á youtube - Þá gæfist ríkisútvarpinu kostur á því að klippa ávarpið í tvennt og selt í auglýsingahlé - ég er reyndar ekki viss um að upphæðin yrði sú sama og í auglýsingahléi skaupsins þar sem talsvert færri horfa á nýárs ávarp forsetans.  En þeir sem vilja alls ekki sjá auglýsingar á milli geta farið á Youtube og horf á ávarpið í einni heild.

 


mbl.is Drottningin á YouTube
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögreglan kom í heimsókn á aðfangadag

Það var skemmtilegur aðfangadagur í gær en ég held samt að yfir daginn hafi hápunktur dóttur minnar verið þegar hún fékk heimsókn frá lögreglunni.  Hún hafði verið svo klár og svarað öllum umferðarspurningunum rétt sem hún skilaði inn.  Heppnin var svo með henni því hún var dregin út og fékk sendan bókaglaðning frá lögreglunni.  Hún hefur gert lítið annað en að lesa bókina fyrir litlu systur sína, já og segja henni mikilvægi þess að líta til beggja hliða áður en maður gengur yfir götu.

Nú þegar ég kom heim eftir hádegið eftir óvenju stuttan vinnudag þ.e ekki nema 4 klukkustundir eða svo þá var hafist handa við að undirbúa pakkaútkeyrsluna sem er allaf eitt af því skemmtilegasta sem maður gerir á hverjum jólum - alltaf gott að fá smákökur í hverju húsi þó svo maður hafi nú alls ekki gott af því að borða svo mikið sem eina köku.

Eftir pakkaútkeyrsluna fóru allir að taka sig til og fara í sitt fínasta púss áður en við færum til tengdaforeldranna til þess að halda aðfangakvöld.  Borðaður var dýrindismatur sem sumir skoluðu niður með eðal rauðvíni en aðrir bara með árgerð 2007 af jólaöli frá Agli Skallagrímssyni (góður árgangur það).  En auðvitað er alltaf mest spennandi hjá krökkum á öllum aldri þegar byrjað er að taka upp jólapakkana - það var alltaf skemmtilegt þegar dæturnar spurðu "hvenær megum við byrja að taka upp jólapakka" - þessi spurning kom á u.þ.b 5-10 mín fresti allt kvöldið Smile og þær voru reyndar alveg steinhissa að hvað tíminn var lengi að líða.

En allt tekur þetta enda og þegar búið var að ganga frá öllu sem við kom matarborðinu þá var gengið í það mikla verk að taka upp jólapakkana.  Þar kom ýmislegt í ljós og fengu allir eitthvað fallegt.  Þegar þessari aðgerð lauk má segja að stelpurnar hafi verið orðnar frekar þreyttar enda tók þetta örugglega rúmar tvær klukkustundir eða svo.

Það gátu því allir haldið til koju saddir, sælir og glaðir með boðskap jólanna í huga nú sem endranær.


Næsta síða »

Höfundur

Óttarr Makuch
Óttarr Makuch

ottarr@centrum.is

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband