Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Í útileigu með "venjulegan" tjaldvagn !

Já er nema von að maður segi í útileigu með "venjulegan" tjaldvagn, fjölskyldan er nú stödd í Húsafelli með þennan fína Compi Camp tjaldvagn sem við leigðum okkur hjá starfsmannafélaginu, vagninn er búinn öllum helstu þægindum á mælikvarða sem stóð fyllilega undir sínu 1995 eða svo.  Það fylgir honum gashellur, borð, stólar svo ekki sé nú talað um gashitaranum sem ekki fylgir nú með allsstaðar.  Við getum svo sem ekkert kvartað og erum síður en svo að því en ef ég lít út um gluggann hægra megin á tjaldvagninum þá er búið að leggja tíu metra löngum húsbíl eða á ég frekar að segja einbýlishúsi á hjólum sem búinn er öllum þægindum sem uppfylla svo sannarlega 2008. Í honum eru tveir flatskjáir, tölva, hjónarúm, klósett, sturta, uppþvottavél, innanhús símkerfi og gervihnattamóttakari, markísu og svo ekki sé nú talað um báða krossarana sem eru í kerru fyrir aftan bílinn, drullug upp fyrir hnakka svo greinilega hafa þau verið notuð um helgina.  Þá er komið að útsýninum sem blasir við mér þegar ég lít út um gluggan vinsta megin á tjaldvagninum þið munið þessum "venjulega" þar er búið að koma vel fyrir hjólhýsa af stærstu gerð velbúið og flott og ætti því að uppfylla allavega 2007 eða svo, einn flatskjár, tölva, klósett, sturta, markísa og gardínur bara svona svo eitthvað sé nú upptalið. 

Á meðan við hjónin spilum við krakkana veiðimann og ólsen ólsen eru unglingarnir á hinum stöðunum hugsanlega að spila EVE online eða aðra góða netleiki og maður getur ekki annað en glaðst yfir því að það sé 3G samband frá Símanum hér í Húsafelli svo fólk geti nú nýtt sér nýjustu tæknina út í hið ýtrasta.  En eitt er víst að allir skemmta sér hérna vel og greinilegt að gleðin skín út um hvern glugga hvort sem menn hýrast í "venjulegum" tjaldvagni, húsbíl eða hjólhýsi.

Hver segir svo að lífið sé ekki yndislegt?


Sólveig fékk nemenda og hvatningarverðlaun Menntaráðs

 

100_0639

Ég var einn af þeim fjölmörgu sem átti leið í Ráðhús okkar reykvíkinga í dag.  Það var sannkölluð hátíð því veita átti nemenda- og hvatningarverðlaun Menntaráðs 2008. 

Stolt, ánægja og gleði skein af hverju andliti, ég veit hreinlega ekki hvort nemendur, foreldrar eða starfsmenn skóla voru hreyknari af verðlaununum nema þá einna helst að allir hafi verið jafn glaðir.  Það var einnig ánægjulegt að fylgjast með hve vel formaður menntaráðs fór með hlutverk dagsins og náði vel til gestanna.  Skemmtilega frjálslegur en hélt samt virðuleikanum, nokkuð sem ekki öllum er gefið.

En ég get svo sannarlega játað að ég ætlaði hreinlega að rifna úr stolti þegar nafn systur minnar var lesið upp.  Já Sólveig Þóra fékk nemenda og hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi árangur á sviði tónlistar.  Hún var tilnefnd af Öskjuhlíðarskóla en þar innan hús sem og í öllum öðrum skólum er erfitt að taka einn nemanda fram yfir annan því öll skara þau framúr hver á sínu sviði.  Sólveig hefur spilað á hljómborð í nokkur ár, komið fram á skólaskemmtunum svo hefur hún að sjálfssögðu spilað fyrir fjölskylduna ófá lög öllum til ánægju og yndisauka.

En eitt þótti mér athyglisvert, þrátt fyrir að þessi verðlaun snertu alla grunnskóla höfuðborgarinnar bæði starfsmenn, nemendur og foreldra þá var þeim ekki gerð góð skil af fjölmiðlum.  Mbl.is er eini fréttamiðillinn sem sagt hefur frá þessum glæsilega árangri hjá nemendum og grunnskólum borgarinnar.  Reyndar er ekkert myndefni frá afhentingunni en þeir sögðu þó frá henni það er meira en allir aðrir miðlar geta sagt.  Hver skildi ástæða þeirra vera?

Til hamingju öllsömul með glæsilegan árangur.


mbl.is Nemendur og skólar fá viðurkenningu menntaráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flottur dagur

Ég fagna þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera einn dag á ári að degi barnsins.  Það er reyndar einkennilegt að það sé ekki löngu búið að setja þennan dag á því við höfum eins og við öll vitum höfum við mæðra- og feðradag og nú loks dag barnsins.

Fyrir mitt leyti þá fannst mér í raun gert furðu lítið úr þessum degi og ég hefði gjarnan viljað sjá hann betur "markaðssettan" t.d sagði mbl.is ekki frá þessum degi fyrr en kl. 17.07 í dag en hefðu í raun sem fjölmiðill átt að segja frá þessum degi strax í morgunn og með því kvatt foreldra til þess að gera eitthvað með börnum sínum.  Við fórum t.d í sund sem var í boði ÍTR og eftir að vera búin að svamla dágóða stund var að sjálfssögðu komið við í bakaríinu, enda tilheyrir að fá sér sér "íslenskan" snúð og kókómjólk eftir góðan sundsprett.  Þegar við vorum búin með kræsingarnar var ákveðið að taka bíltúr sem endaði að sjálfssögðu sem ísbíltúr þar sem sú stutta í bílnum fullyrti að hún hefði ekki fengið í "alveg svakalega lengi" sem í raun var bara fyrir helgi en tíminn er lengri að líða hjá þessum litlu en okkur hinum, allavega stundum.

Ákveðið var að frúin og eldri dóttirin færi að sjá FRAM leggja Þróttara í fótboltaleik dagsins á meðan ég og sú stutta ákváðum að vera heima og grilla.  Þegar við vorum búin að grilla og borða gómsæta hamborgara, sem í þetta skiptið voru án ostarins - þar sem sú stutta án allan ostinn á meðan hún var að bíða eftir hamborgaranum þá spiluðum við eitt spil og svo var kominn háttatími því erfiður leikskóladagur er á morgun hjá henni.

Sem sagt stórskemmtilegur dagur barnsins hér á þessu heimili og vonandi á sem flestum heimilum. 


mbl.is Merki og hljómur dags barnsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveitaferðin

IMG 0360Laugardagurinn var stórskemmtilegur hjá okkur því við fórum í sveitarferð með leikskólanum hjá yngsta meðlim fjölskyldunnar.  Förinni var heitið upp í Mosfellsdal til þess að leyfa börnum á öllum aldri að sjá heimilisdýrin á bænum.

Þeirri stuttu þótti þó mest til rútuferðarinnar koma þar sem bílstjórinn var jafn gamall og afi hennar þá þótti hún hann ákaflega traustur bílstjóri og hann átti svo sannarlega stóra rútu.  Henni þótti þó einkennilegt að við skyldum ekki hafa boðið öllum í hverfinu með því það voru nokkur sæti laus!

IMG 0418

Að sjálfssögðu var nauðsynlegt að prófa traktorana á bænum enda vant fólk þarna á ferð, minnir kannski einna helst á atriði úr myndinni "með allt á hreinu" þegar Grýlurnar voru að ferðast með traktornum, en ótrúlegt hvað hægt er að komast langt á traktor sem fer í raun ekki neitt nema í huganum.  Takið sérstaklega eftir svipnum á bílstjóranum, ákveðin svipur þar á ferð og greinilega manneskja sem veit uppá hár hvað hún er að gera og hvert hún er að fara.

 

 IMG 0400Eins og gefur að skylja voru margir vinir þarna á ferð enda leikskólinn fullt hús vina og þarna má sjá tvær stuttar í mikilli gleðivímu eftir að hafa fengið að halda á flestum húsdýrum bæjarins þrátt fyrir að einhverjum þótti sérstakt að þær mættu ekki prufa að halda á kálfinum.  Reyndar voru margir spekingar á ferðinni þennan dag í sveitinni og oft skemmtilegt að hlusta á útskýringar barnanna á því sem var að gerast, til dæmis þá var einn lítill alveg með það á hreinu að kindurnar hefðu gleymt að sturta niður, því það væri svo mikil pissulykt í fjárhúsunum og okkar telpa var alveg búinn að sannfæra sjálfan sig um að rútubílstjórinn myndi pakka öllum dýrunum inn og setja undir sætin í rútunni (í lestarnar) þ.m.t hestinn því hún ætlaði svo sannarlega að hafa öll dýrin heima hjá sér a.m.k. í sumar.  Hver segir svo að lífið sé flókið ?

Hér til hliðar er hægt að skoða fleiri myndir úr ferðinni í myndamöppunni "sveitaferðin 2008"


Síminn - á toppnum

458586Glæsilegur árangur starfsmanna Skipta og dótturfyrirtækja.  Það er án efa gaman að hafa nú komist á topp landsins.  Ég var svo heppinn að hitta hópinn áður en hann lagði af stað um miðnætti frá Hótel Skaftarfelli og að sjálfssögðu voru teknar nokkrar myndir, þær má sjá í myndaalbúminu

En líklega eru starfsmenn hvað ánægðastir með að þessu verkefni sé nú lokið og að þeir geti frá og með næsta laugardegi sofið aðeins lengur þar sem þeir þurfa ekki að mæta á Esjuna um kl 09.00 til þess að taka þátt í æfingarferð fyrir Hnjúkinn. 

IMG 1037Það hefur verið gaman að taka þátt í þessu verkefni þrátt fyrir að hafa ekki komist á Hnjúkinn að þessu sinni.  En ég mun án efa fara síðar enda útsýnið frá toppnum ómetanlegt.

Nú má með sanni segja að Síminn sé á toppnum, enda ekkert annað fjarskiptafyrirtæki sem getur boðið uppá samband frá hæsta tindi landsins. 

Til hamingju Skipta, Síma, Mílu og Sensa starfsmenn með glæsilegan árangur.


mbl.is Bein útsending frá Hnjúknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Piknik ferð fyrir sumarið!

Átakið hans BúaJá það hlýtur að teljast skrýtið fólk sem ákveður að fara í piknik ferð um miðjan apríl mánuð.  Allavega verður maður að hafa góða ástæðu til þess ekki satt?  Við höfðum svo sannarlega góða ástæðu því við ákváðum að fara og hitta vinnufélaga okkar sem dvalið hefur á Reykjalund síðustu vikur, á milli þess sem hann ákveður að hitta bóndann á KFC - reyndar segist hann bara hafa farið einu sinni, líklega stolist með því að húkka sér far frá Reykjalund inní Mosfellsbæ og aftur til baka.

 

Í heimsókn á ReykjalundiÁkvað eins manns eða öllu heldur eins konu skemmtinefnd deildarinnar eftir langa og stranga undirbúningsfundi að við skyldum skella okkur og hitta félaga okkar og snæða saman í lundi sem er rétt við Reykjalund, við létum það ekki á okkur fá þó svo Kári væri að blása og hitinn rétt rúmlega tvær gráður eða svo.   Fundum bara góða Laut sem veitti okkur skjól og gæddum okkur svo á heimatilbúna Spelt brauðinu hennar Helgu og ekki má heldur gleyma hafrakökunum hans Kristins, sem eru svo óhollar að þær eru líklega komnar hringinn og orðnar hollar þrátt fyrir kíló af smjöri og annað eins af einhverju örðu óhollu..... en góðar eru þær.

VeisluborðiðReyndar voru kræsingarnar á piknik borðinu slíkar að sagan segir að borðið hafi hreinlega svignað eða svifið fer eftir því við hvern er talað af ferðahópnum.....LoL

En það verður ánægjulegt þegar Sigvaldi snýr aftur til starfa, endurnærður og liðugri en fimleikamaður. 

Nú er bara spurning hvað nefndin segir um framhaldið....

 


Met þátttaka í Fram hlaupinu

Það var ánægjulegt að fá það hlutverk að "starta" afmælishlaupi Fram sem fram fór hér í Grafarholtinu kl 11.00 í dag.  Ekki var mér þó treyst fyrir byssu en fékk þó gjallarhorn sem hægt var að brúka í þetta verk, 3 - 2 og byrja og hópurinn hljóp af stað.  Einbeitningin og gleðin skein úr öllum andlitum þar sem allir höfðu sett sér það markið að klára 3 km hringinn sem farin var, vitaskuld fór hver á sínum hraða hvort sem þeir fóru hlaupandi, gangandi nú eða í kerrum. 

Þetta er í annað sinn sem Fram er með hlaup hér í Grafarholtinu og óhætt að segja að það hafi verið góð þátttaka því fjöldi þeirra sem hlupu var helmingi fleiri en í fyrra eða í kringum 150 manns.

Dagkráin hér í Grafarholtinu er stórglæsileg í tilefni af fyrsta sumardegi ársins.

kl. 11.00 var 100 ára afmælishlaup Fram

kl. 13.30 Skrúðganga frá Þórðarsveig að Ingunnarskóla.

kl. 14.00 Hátíðarmessa

kl. 14.20 Skemmtidagskrá og leiktæki við Ingunnarskóla

kl. 15.00 Sumarbingó

Við fjölskyldan munum að sjálfssögðu taka þátt í öllum viðburðunum og hafa gaman af.


Erfið ákvörðun og það helst í morgunsárið !

Eins og einhver sagði “dagurinn í dag er dagurinn sem ég hef verið að bíða eftir” eða er það svo, ég veit það ekki, því í dag þarf ég að taka mikilvæga en ekki síður erfiða ákvörðun sem ég kemst ekki hjá að taka og því fyrr sem ég tek hana því betra.  En eitt er víst alveg eins og ég sit hér við tölvuna, ég verð að taka ákvörðunina í dag og það helst fyrir hádegi!

Hefði þurft að taka hana í gær en hugsaði bara en tók ekki af skarið.  Sem er nú þó svo ég segi sjálfur frá nokkuð ólíkt mér þar sem ég er oftast nær fljótur að taka ákvarðanir og er nokkuð fastur fyrir.  Svo les maður á mbl að skyndiákvarðanir séu bestar og þá spyr ég er ég þá að taka ranga ákvörðun af því ég hef hugsað hana í rúmlega 90 klukkustundir!  Ég bara spyr!


Framtíðar leikari....

Set hér inn til gamans tvær myndir af Hafdísi Hrönn dóttur minni, það virðist alveg orðið klárt að hún mun verða leikkona Smile Hún er aldrei eins kát eins og þegar hún getur glatt aðra með leik, grettum eða bara brosi.  Svo er ein mynd af fyrsta flugeldinum sem hún fékk að skjóta upp á síðasta gamlárskvöldi, svo eru það bara kökurnar næst ..

Leikari fjölskyldunnar  


Höfundur

Óttarr Makuch
Óttarr Makuch

ottarr@centrum.is

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband